Bitcoin og efnahagsástand heimsins - Hvað er að gerast og hvað er framundan?

Mikið hefur verið fjallað um verðbólgu, lækkanir á mörkuðum og óvissu í efnahagsmálum heimsins undanfarið í fjölmiðlum. Nýlega birtist frétt um að S&P 500 hlutabréfavísitalan í Bandaríkjunum hefði ekki lækkað jafn mikið á fyrri hluta árs síðan 1970...

Bitcoin og efnahagsástand heimsins - Hvað er að gerast og hvað er framundan?


Sögulegar lækkanir á eignamörkuðum - Verðbólga keyrist upp

Mikið hefur verið fjallað um verðbólgu, lækkanir á mörkuðum og óvissu í efnahagsmálum heimsins undanfarið í fjölmiðlum. Nýlega birtist frétt um að S&P 500 hlutabréfavísitalan í Bandaríkjunum hefði ekki lækkað jafn mikið á fyrri hluta árs síðan 1970, en vísitalan hefur lækkað um rúmlega 20% frá 3. janúar 2022. Bitcoin og aðrar rafmyntir hafa sannarlega ekki farið varhluta af þessum lækkunum, eins og flestum er kunnugt.

Samhliða þessu hefur verðbólga stöðugt aukist og mælist nú á bilinu 8-9% á Íslandi og í Bandaríkjunum. Sambærilegar verðbólgutölur eru uppi á teningnum víðast hvar í heiminum. Orsakir verðbólgunnar eru margþættar, en flestir virðast sammála um að fordæmalaus peningaprentun sem hófst í mars 2020, eftir að fyrsta Covid-bylgjan skall á, vegi þyngst. Einnig verður að nefna stríðsátökin í Úkraínu og ríkjandi hrávöruskort í heiminum.

Aðgerðir seðlabanka heimsins

Segja má að augu allra fjárfesta beinist nú að verðbólgutölum og aðgerðum seðlabanka heimsins, einkum þeim bandaríska. Seðlabankar víðast hvar í heiminum hafa hækkað stýrivexti í þeirri von um að ná tökum á verðbólgunni. Hækkun stýrivaxta felur í sér hærri vexti og þyngri greiðslubyrði á lánum. Fyrir vikið er síður freistandi fyrir fjárfesta að fjármagna fjárfestingar sínar með lánsfé eins og tíðkast hefur í ríkum mæli síðustu ár á eignamörkuðum; hlutabréfamörkuðum og rafmyntamörkuðum þar með talið, þegar vextir voru í sögulegu lágmarki og aðgengi að lánsfé mjög greitt.

Í kjölfar skarpra stýrivaxtahækkana skapast almennt söluþrýstingur á eignamörkuðum og hefur kaupendahliðin veikst vegna skerts aðgengis að lánsfé. Afleiðingin af því eru þessar miklu lækkanir sem við höfum orðið vitni að í hlutabréfum og Bitcoin.

Hringrás markaða

Mikilvægt er á tímum sem þessum að hafa hugfast að ekkert er nýtt undir sólinni í þessum efnum. Markaðir skiptast í hækkunarfasa (e. bull market) og lækkunarfasa (e. bear market). Yfir lengri tíma litið leitar þó verðmiðinn á góðum eignum alltaf upp í gegnum þessar sveiflur, ef þróunin er skoðuð í sögulegu samhengi. Þess vegna líta reyndir fjárfestar yfirleitt á bjarnarmarkaði sem gullin kauptækifæri og tileinka sér langan tímaramma gagnvart góðum fjárfestingum; 5, 10, 20 ár og jafnvel lengur. Fæstir búa hins vegar yfir slíkri þolinmæði og fyrir vikið er hegðun fólks á mörkuðum gjarnan órökrétt þar sem fólk vill iðulega kaupa sem mest eftir því sem verðmiðinn hækkar og verða ríkt helst í gær. Slík nálgun er hins vegar sjaldnast vænleg til árangurs, hvort sem í hlut eiga fjárfestingar eða aðrir hlutir í lífinu og er Bitcoin engin undantekning á því.

Eðli og hlutverk Bitcoin á frjálsum markaði

Verðmiðinn á Bitcoin stýrist alfarið af framboði og eftirspurn á frjálsum markaði, sem er öllum aðgengilegur 24 tíma sólarhringsins, 365 daga ársins. Bitcoin er hins vegar miklu meira og merkilegra fyrirbæri en einhver verðmiði sem sveiflast upp og niður á markaði og þess vegna er nauðsynlegt að raunverulega skilja grundvallaratriði myntarinnar.

Bitcoin er stafrænn og ómiðstýrður peningur, sem hægt er að senda hvert og hvenær sem er, milliliðalaust. Bitcoin er jafnframt til í endanlegu magni; aðeins verða til 21 milljón BTC, aldrei fleiri og því getur enginn breytt. Bitcoin er því fyrsta ómiðstýrða eign sögunnar sem felur í sér færanlega stafræna sjaldgæfni. Bitcoin má líkja við stafrænt, betrumbætt gull eða Gold 2.0 eins og það er stundum kallað á ensku. Það er síðan undir heiminum komið hvaða hlutverk Bitcoin fær að gegna í efnahagslífi heimsins til framtíðar.

Bitcoin hefur vaxið í gegnum sveiflur síðustu ára frá því að vera líkt við þriggja mánaða túlípanaæði í Hollandi á 17. öld yfir í það að vera orðinn viðurkenndur fjárfestingarkostur hjá stórfyrirtækjum, bönkum, vogunarsjóðum og lífeyrissjóðum á helstu fjármálamörkuðum heims. Nú þegar hafa tvö ríki í heiminum gert Bitcoin að lögeyri (e. legal tender), El Salvador og Mið-Afríkulýðveldið. Efasemdaraddirnar heyrast þó enn, eins og á við um alla byltingarkennda tækni, hvort sem í hlut á rafmagnið, bílar, símar eða internetið. Þessar kunnuglegu raddir hafa líklega ekki heyrst jafn hátt og síðan í febrúar 2018 þegar Bitcoin hrundi úr tæplega $20.000 í um $3.200. Nú þegar þessi orð eru rituð er verðið í um $22.000.

Bitcoin og stofnun Myntkaupa

Myntkaup tók til starfa 11. maí 2020, þegar Bitcoin fór í gegnum þriðju helmingunina (e. halving). Helmingun Bitcoin gerist á um fjögurra ára fresti og felur einfaldlega í sér að nýtt Bitcoin er grafið helmingi hægar en áður. Þannig voru grafin um það bil 1.800 BTC á dag fyrir 11. maí 2020, en nú eru grafin um 900 BTC á dag og eftir næstu helmingun, sem áætluð er að eigi sér stað í apríl 2024, verða grafin um 450 BTC á dag. Þannig gengur þetta þar til 21 milljón BTC verða grafin, sem áætlað er að gerist árið 2140.

Verðmiði Bitcoin við stofnun Myntkaupa var rúmlega $8.300 og nemur því hækkun myntarinnar um 160% miðað við verðmiðann þegar þessi orð eru rituð, þrátt fyrir allar þær lækkanir sem á undan hafa gengið. Slík ávöxtun sést einfaldlega ekki á öðrum mörkuðum.

Hvað er á döfinni?

Myntkaup stefnir að því að auðvelda landsmönnum að leggja til hliðar með reglubundnum sparnaði í Bitcoin. Hin svokallaða DCA sparnaðaraðferð er stöðugt að verða vinsælli kostur meðal einstaklinga til þess að fjárfesta í Bitcoin. DCA stendur fyrir Dollar Cost Averaging og felur einfaldlega í sér að í stað þess að kaupa fyrir miklar fjárhæðir í einu dreifir maður kaupunum jafnt og þétt með reglubundnu millibili og ver sig þannig gagnvart gengissveiflum. Sem dæmi má nefna ef maður ætlar að kaupa Bitcoin fyrir 1.000.000 kr. á árinu 2022 þá segir sig sjálft að maður hefði frekar viljað kaupa í júní á genginu USD 17.600 heldur en í janúar á USD 47.000. En þá er spurningin hvenær er botninum náð og hvenær er maður mögulega að kaupa toppinn? Sannleikurinn er sá að enginn veit það, ekki frekar en á öðrum mörkuðum og langsamlega fæstir hafa tíma, orku eða áhuga til þess að lifa og hrærast í slíkum pælingum alla daga. Ef maður gefur sér hins vegar að Bitcoin, í krafti tækni sinnar og sjaldgæfni, muni halda áfram að vaxa og hækka í verði eftir því sem fleiri einstaklingar, fyrirtæki og ríki tileinka sér rafmyntina, getur maður verið viss um að það sé aldrei slæmur tími að kaupa Bitcoin fyrir þann sem er þolinmóður. DCA er fullkomin aðferð fyrir þá sem vilja fjárfesta til langs tíma í Bitcoin en vilja nýta tímann í annað en að liggja yfir sveiflukenndu gengi Bitcoin.

Myntkaup mun bjóða viðskiptavinum sínum upp á þann möguleika að fá valkvæða greiðslu í heimabankann sinn. Þegar reikningurinn er greiddur verður Bitcoin keypt sjálfkrafa og þannig bætist reglulega við Bitcoin inneign viðskiptavinarins.

Að spá fyrir um framtíðina er fag sem fæstum gefst vel, einkum til skemmri tíma, og verður þess ekki freistað hér. Hins vegar liggur morgunljóst fyrir að Bitcoin heldur áfram að vekja áhuga og umtal fólks í gegnum þann ævintýralega vöxt og velgengni sem einkennt hefur rafmyntina síðustu 13 ár. Hvað sem gerist næstu vikur og mánuði er ómögulegt að segja en forsendurnar fyrir Bitcoin hafa líklega aldrei verið jafn sterkar og einmitt núna þegar afleiðingar peningaprentunar síðustu ára ríða yfir heimsbyggðina með illviðráðanlegri verðbólgu. Þegar uppi er staðið þarf maður kannski að spyrja sig: Vil ég spara í kerfi þar sem stöðugt er verið að þynna hlutdeild mína út með gegndarlausri peningaprentun eða vil ég spara í kerfi þar sem aldrei verða til fleiri en 21 milljón einingar?

Áfram og upp á við!  🚀