Rafmyntaárið 2022 í hnotskurn og hvers má vænta á nýju ári?

Árið 2022 hefur reynst krefjandi fyrir þátttakendur á eignamörkuðum, en segja má að árið hafi einkennst af alþjóðlegu verðbólguskoti, stýrivaxtahækkunum, samdrætti í hagkerfum heimsins og stríði í Evrópu.

Rafmyntaárið 2022 í hnotskurn og hvers má vænta á nýju ári?

Krefjandi ár senn að líða

Árið 2022 hefur reynst krefjandi fyrir þátttakendur á eignamörkuðum, en segja má að árið hafi einkennst af alþjóðlegu verðbólguskoti, stýrivaxtahækkunum, samdrætti í hagkerfum heimsins og stríði í Evrópu. Ekki er við öðru að búast á slíkum óvissutímum en langvarandi lækkunum á eignamörkuðum eins og raun ber vitni. Rafmyntir hafa farið einna verst út úr þessum lækkunum, en að sama skapi var hvergi meiri vöxt að finna en á þeim markaði árin 2020 og 2021. Ef þessar lækkanir eru greindar í víðara samhengi má benda á að í mars 2020, þegar fyrsta Covid-bylgjan skall á nam heildarmarkaðsvirði rafmynta um 149 milljörðum dollara, samanborið við um 870 milljarða dollara þegar þessi orð eru rituð, en hæst fór heildarmarkaðsvirði rafmynta í rúma 3.000 milljarða dollara í nóvember 2021. Eftir stendur því, þrátt fyrir allar hremmingar ársins sem nú er að líða, tæp 500% hækkun á markaðsvirði rafmynta frá Covid-botninum svokallaða í mars 2020. Til samanburðar má nefna að gengi leiðandi hlutabréfavísitölu heims, S&P500, fór lægst í 2.237 23. mars 2020, en stendur nú í rétt rúmum 4.000, sem gerir um 80% hækkun. Ef gengi Bitcoin er greint sérstaklega í þessu samhengi má sjá að það er í talsverðu samræmi við heildarmarkaðsvirði rafmynta á þessu tímabili, en Bitcoin fór lægst í um 4.100 dollara í mars 2020 en stendur nú í rétt tæpum 18.000 dollurum, en fór hæst í rúmlega 69.000 dollara. Þessar tölur koma heim og saman við spakmælin að þetta er langhlaup en ekki spretthlaup. Sá sem ætlar sér að hagnast á fjárfestingum þarf að tileinka sér þolinmæði og þrautseigju og kunna að brynja sig gagnvart skammtímasveiflum.

Sannarlega hefur það ekki hjálpað rafmyntum eða ímynd þeirra að sumar kauphallir hafa reynst varasamar og ber þá helst að nefna Celsius og FTX, en fall hinnar síðarnefndu er talsvert áberandi í fjölmiðlum um þessar mundir. Viðskiptavinir þessara fyrirtækja horfast nú í augu við þann bitra veruleika að mjög líklega mun lítið sem ekkert fást upp í þeirra kröfur, og þá fyrst að undangengnu áralöngu skiptaferli. Eins sársaukafullir og atburðir sem þessir eru, er það engu að síður jákvætt við bjarnarmarkaði eins og þann sem nú ríður yfir, að þeir eiga það einmitt til að afhjúpa óheiðarlega aðila innan geirans og eru að því leyti nauðsynlegir ef svo má að orði komast.

Jákvæð teikn á lofti?

Nýjustu verðbólgutölur í Bandaríkjunum gáfu tilefni til bjartsýni, en þær voru nokkuð framar vonum. Verðbólga mældist 7,1% í nóvember, en gert var ráð fyrir 7,3%. Er þetta jafnframt fimmti mánuðurinn í röð sem verðbólgan hefur lækkað í Bandaríkjunum eftir að hún fór hæst í 9,1% í júní á þessu ári. Viðbrögð Seðlabanka Bandaríkjanna við þessari miklu hækkun á verðbólgu undanfarið ár hafa verið nokkuð fyrirsjáanleg, en stýrivextir í Bandaríkjunum hafa hækkað jafnt og þétt og eru þeir nú í 4,5%, en þeir voru 0,25% í upphafi árs. Sömu viðbrögð hafa einkennt aðra seðlabanka heimsins og hefur sá íslenski ekki verið nein undantekning þar á, en stýrivextir hér á landi eru nú 6%, en í ársbyrjun voru þeir 2%. Gert er ráð fyrir minniháttar hækkunum fram til febrúar á næsta ári, en eftir það styttist í viðsnúning. Ljóst er að margir fjárfestar munu halda að sér höndum þar til sá viðsnúningur hefur raungerst, en þá má segja að Seðlabankinn gefi “grænt ljós” að nýju á fjárfestingar á eignamörkuðum.


Áhrif þessara snörpu stýrivaxtahækkana eru margþætt, en helst má nefna eftirfarandi tvö atriði. Annars vegar eykst allur kostnaður af lánum umtalsvert og fyrir þær sakir einar verður minni eftirspurn eftir fjárfestingum þar sem aðilar á markaði hafa minna á milli handanna. Hins vegar sem er auðvitað náskylt fyrra atriðinu, verður sá kostur að fjármagna fjárfestingar með lántöku mjög fráhrindandi fyrir fjárfesta. Þetta atriði skiptir verulegu máli þar sem fjárfestingar á eignamörkuðum hafa í ríkum mæli verið gerðar í krafti hagstæðra lána. Til að mynda hafa fjölmargir Íslendingar endurfjármagnað húsnæðislán sín og þar af leiðandi átt meira milli handanna til fjárfestinga og einkaneyslu. Til einföldunar má segja í stuttu máli að nú er allur rekstur orðinn dýrari, bæði fyrir fólk og fyrirtæki, minna magn er af peningum í umferð og fyrir vikið er einfaldlega erfiðara að fjárfesta. Hið jákvæða ber þó einnig að nefna, en svo virðist sem þessar stýrivaxtahækkanir séu að ná tökum á verðbólgunni, þótt mörgum þyki heldur seint til komið.

Bitcoin hefur gengið í gegnum fjölmarga hækkunar- og lækkunarfasa í gegnum tíðina. Á einhverjum tímapunkti verður viðsnúningur. Lægst fór gengi Bitcoin í um 15.600 dollara í nóvember, en það er tæp 80% lækkun frá toppnum í nóvember 2021. Í sögulegu samhengi er þessi verðhegðun frekar dæmigerð fyrir Bitcoin og reynslumiklir aðilar á markaðnum sjá miklu frekar kauptækifæri heldur en tilefni til örvæntingar. Til viðbótar má nefna að nú styttist í næstu Bitcoin helmingun, en gert er ráð fyrir að hún eigi sér stað í mars 2024, eða eftir um 15 mánuði. Á sama tímapunkti fyrir síðustu helmingun, sem átti sér stað 11. maí 2020, eða í febrúar 2019, var gengi Bitcoin í um 4.000 dollurum, en var um 9.000 dollarar á helmingunardaginn sjálfan, þann 11. maí 2020. Auðvitað ber að gera fyrirvara á spágildi atriða sem þessara, einkum og sér í lagi í ljósi þess að Bitcoin hefur ekki áður fengið að kynnast jafn krefjandi aðstæðum í alþjóðlegum efnahagsmálum og nú. Að því sögðu liggur hins vegar alveg ljóst fyrir að það er ýmislegt sem bendir til þess að botninum kunni að hafa verið náð, eða hann sé að minnsta kosti í sjónmáli, og betri tímar séu framundan.

Hvort skipta gengissveiflur Bitcoin eða grundvallaratriði myntarinnar meira máli?

Í framangreindri umfjöllun er leitast við að varpa ljósi á markaðstæður og efnahagsmál í víðara samhengi og hvernig það hefur hvort tveggja áhrif á gengi Bitcoin. Nokkuð auðvelt getur verið að týna sér í þessum hugleiðingum og missa sjónar á því hvað Bitcoin raunverulega er. Hér verður ekki farin sú leið að endurtaka umfjöllun um grundvallaratriði Bitcoin, enda er til ógrynni af vönduðu efni um þau, bæði í bloggpóstum Myntkaupa, en eins er enginn skortur á góðu efni á Youtube og góðum bókum sömuleiðis, en meðal annars má nefna The Bullish Case of Bitcoin eftir Vijay Boyapati og bækurnar The Bitcoin Standard og The Fiat Standard eftir höfundinn Saifedean Ammous.

Frekar verður sú leið farin að hvetja fólk á tímum sem þessum að kynna sér hvað Bitcoin er og hvað það raunverulega snýst um. Auðvitað eru margir sem komu nýir inn og keyptu Bitcoin í fyrra í rafmyntaæðinu sem þá gekk yfir án þess að hafa fyrir því að kynna sér viðfangsefnið sérstaklega og það er vel skiljanlegt. Nú er hins vegar ágætt að staldra við og spyrja sig áður en maður tekur ákvörðun um framhaldið hverjir kostir Bitcoin eru. Er núverandi peningakerfi eins og við þekkjum það í lagi? Getur dreifstýrður peningur í takmörkuðu magni betrumbætt það? Er eitthvert gagn af því að geta flutt verðmæti yfir internetið milliliðalaust? Þessar spurningar og margar fleiri þarf að svara til þess að geta vegið og metið kosti Bitcoin. Fyrir þann sem er sannfærður um kosti og framtíðargildi Bitcoin er mjög auðvelt að þola þessar ýktu skammtímasveiflur sem mörgum reynast eðlilega erfiðar.

Gefðu Bitcoin í jólagjöf!

En þá að máli málanna - jólin eru á næsta leyti! Bitcoin jólagjafir hafa vakið mikla lukku hjá viðskiptavinum Myntkaupa og munu standa þeim áfram til boða. Að gefa Bitcoin í jólagjöf er bæði sniðugt fyrir þann sem maður vill kynna fyrir myntinni sem maður veit að hefur áhuga, en einnig er vinsælt að hafa smá húmor og gefa frændanum sem finnur Bitcoin allt til foráttu og kaftala hann um rafmyntina hörglu í næsta jólaboði!

Skrefin eru einföld en þau má finna á eftirfarandi hlekk: https://hjalp.myntkaup.is/article/51-gefdu-rafmynt-i-gjof

Að lokum óskar Myntkaup viðskiptavinum sínum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári!