Viðskiptamogginn: "Hafa selt 12.000 Íslendingum rafmynt"
Greinin birtist í Viðskiptahluta Morgunblaðsins 1. febrúar 2023.
Viðskiptavinir Myntkaupa nálgast nú tólf þúsund. Patrekur Maron Magnússon, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir kaupendahópinn hafa reynst fjölbreyttari en ráðgert var. Sífellt fleiri sjái kosti rafmynta en afar auðvelt sé að kaupa og selja.
Patrekur Maron Magnússon, framkvæmdastjóri Myntkaupa, tekur á móti blaðamanni á skrifstofu sinni í Grósku í Vatnsmýri.
Rafmyntir hafa verið í umræðunni og var greinilegt á viðbrögðum
við miðopnuviðtali ViðskiptaMoggans við Daða Kristjánsson, framkvæmdastjóra Visku Digital Assets fyrir hálfum mánuði, að málefnið vekur heitar umræður.
Rafmyntir hafa engu að síður skotið rótum á íslenskum fjármálamarkaði og því verður ekki hjá því komist að fjalla um þær.
Uxu hratt með hækkuninni
– Hvernig hefur eftirspurnin þróast hjá Myntkaupum? Þá meðal annars eftir kórónuveirufaraldurinn og svo innrás Rússlandshers í Úkraínu. Verðbólgan hefur verið á uppleið og jafnvel dregið úr tiltrú á hina stóru gjaldmiðla.
„Við fórum í loftið í maí 2020. Þetta byrjaði rólega en um leið og gengi bitcoin byrjaði að hækka uxum við mjög hratt. Við hjá Myntkaupum erum með um 12 þúsund viðskiptavini á Íslandi. Það er meira en margir kynnu að ætla og nú eru nokkur prósent af þjóðinni skráð hjá okkur,“ segir Patrekur.
„Árið 2021 var heildarveltan hjá okkur, kaup og sala, um 5 milljarðar og í fyrra var upphæðin aðeins lægri. Veltan fylgdi mikið verðhækkunum en í fyrra var hún um 3 milljarðar. Undanfarið hafa verið verðlækkanir á mörkuðum, og þá dregur aðeins úr veltunni, en hún hleypur samt á milljörðum. Við tökum eftir því að verðsveiflur hafa mikil áhrif á veltu, líka í verðlækkunum og þá aukast innborganir sem sýnir trú fólks á bitcoin. Það eru meiri viðskipti með rafmyntir en fólk gerir sér grein fyrir.“
Opið allan sólarhringinn
– Hversu auðvelt er að kaupa rafmyntir?
„Það er mjög auðvelt. Við erum með app og viðskiptavinurinn leggur inn peninga með bankamillifærslu og það er afgreitt í nær öllum tilfellum á innan við tíu mínútum, sama hver upphæðin er. Þú getur lagt inn milljón, farið inn á reikninginn hjá þér eftir tíu mínútur og keypt og selt allan sólarhringinn. Þessi markaður sefur aldrei. Hann er ekki eins og hefðbundnir markaðir þar sem er opið frá níu til fjögur heldur geturðu verslað um miðja nótt. Það er ekkert mál og margir sem gera það.“
– Hverjir eru að skipta við ykkur? Nú eru þetta um 12 þúsund manns, það er væntanlega fjölbreyttur hópur?
„Algjörlega. Þegar við settum Myntkaup í loftið héldum við að þetta yrðu mest karlmenn á aldrinum 18 til 35 ára. Það kemur á óvart að þetta er miklu breiðari hópur.
Karlmenn á aldrinum 40 til 60 ára eru stærstu viðskiptavinirnir veltulega séð. Svo eru 15-20% skráðra viðskiptavina okkar konur og því eru margar konur í rafmyntum.“
Birtast á skattframtali
– Kemur eign í rafmyntum fram á skattframtali?
„Já. Skatturinn biður um upplýsingar einu sinni á ári sem sýnir stöðu reikninga hjá Myntkaupum og það er sjálfkrafa fyllt út á skattframtali.“
– Þannig að þetta er ekki utan fjármálakerfisins?
„Nei. Alls ekki. Fólk borgar skatt þegar það innleysir hagnað. Það er greiddur 22% fjármagnstekjuskattur við sölu. Þetta er því alls ekki utan kerfisins. Ég held reyndar að skattyfirvöld séu ánægð með að hafa Myntkaup. Þau hafa þá miklu betri yfirsýn yfir fjölda þeirra sem eiga rafmyntir og hvaða upphæðir er um að ræða.“
Mest í uppsveiflum
– Hvernig er markaðsstarfið?
„Við auglýsum mest í uppsveiflum. Þá meðal annars hjá RÚV, Vísi og hjá ykkur hjá Árvakri. Við vorum til dæmis með sjónvarpsauglýsingar sem voru sýndar í kringum leiki handboltalandsliðsins í fyrra.“
– Hvaða rafmyntir eru í boði?
„Bitcoin og ethereum eins og er. Við höfum alltaf stigið varlega til jarðar og bjóðum til dæmis ekki upp á hundamyntir sem fara niður um 99,9%. Ef fólk vill kaupa eða selja slíkar myntir getur það farið í erlendar kauphallir en við viljum vera einföld og örugg leið fyrir Íslendinga sem vilja versla rafmyntir.“
– Hvað skapar tekjur? Eruð þið með umsýsluþóknun?
„Já, tekin er þóknun við kaup og sölu samkvæmt gjaldskrá.“
– Hvað starfa margir hjá ykkur?
„Nú erum við fjórir í fullu starfi og erum jafnframt með aukastarfsmenn og sterkan hluthafahóp.“
Stór og virkur markaður
– Lesandi blaðsins sendi fyrirspurn eftir viðtalið við Daða. Rifjaði upp að gullforði hefði verið að baki dollaranum. Nú væru menn að kaupa bitcoin fyrir dollara eða önnur áþreifanleg verðmæti. Spurði svo hvernig „eitthvað gæti orðið til af engu“?
„Ég spyr til baka: hvað er á bak við gull annað en takmarkað framboð? Bitcoin er til í algjörlega endanlegu magni.“
– En þú varst að segja að það hefur orðið til stór og virkur markaður með rafmyntir og að margir séu tilbúnir að setja krónur eða dollara eða hvaða mynt sem er í skiptum fyrir bitcoin. Þannig að það eru þá eins og hver önnur viðskipti með vörur; gerð í trausti þess að hægt sé að endurselja?
„Algjörlega en flestir markaðir virka þannig. Þegar þú fjárfestir í hlutabréfum ertu að gera ráð fyrir að geta selt þau á tilteknu verði síðar. Það er svakaleg velta með rafmyntir, ekki aðeins á Íslandi heldur líka úti í heimi og þetta er mun stærri markaður en margir átta sig á. Og eins og Daði Kristjánsson benti á [í ViðskiptaMogganum] hefur Blackrock, sem er stærsti eignastýringaraðili í heiminum, fengið leyfi til að fjárfesta í Bitcoin.
Ísland svolítið eftir á
Þetta er ekki lengur eins og 2014. Þá var hægt að segja að þetta
væri aðeins lítill markaður. Umfang hans er orðið mikið og fólk í fjármálaheiminum og á Wall Street þekkir hann orðið vel. Það eru allir meðvitaðir um þennan markað. Umræðan er oft svolítið eftir á á Íslandi. Margir halda enn að þetta sé svona pönkrokk dæmi en nú eru rafmyntir viðurkenndur fjárfestingarkostur. Lífeyrissjóðir úti í heimi eru farnir að fjárfesta í þeim og svo framvegis.“
– Á netinu má nálgast umræðuþætti þar sem meðmælendur bitcoin, og annarra rafmynta, setja þær í samhengi við að einhvers konar uppstokkun sé fram undan í hinu alþjóðlega fjármálakerfi. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, sem skrifaði bók um fall Kaupþings, hefur í tilefni af umfjöllun um þessi sjónarmið sagt að umbrot séu regluleg á fjármálamörkuðum. Hefur jafnframt gagnrýnt að fjölmiðlar skuli gera rafmyntum hátt undir höfði. Þá eru uppi ýmsar kenningar um ástæður þess að mælt sé með rafmyntum og er því jafnvel haldið fram að verið sé að grafa undan hinu alþjóðlega fjármálakerfi?
Peningaprentun áhyggjuefni
„Margir í bitcoin samfélaginu hafa áhyggjur af þeirri peningaprentun sem er í gangi. Bandaríski seðlabankinn lækkar stýrivexti niður í núll og fer að prenta peninga á fullu til að fást við faraldurinn [en áður hafði bankinn gripið til slíkra aðferða eftir hryðjuverkaárásirnar 2001 og fjármálakreppuna 2008]. Margir hafa sagt að verðbólga hlyti að fylgja slíkri peningaprentun en meginstraumshagfræðingar sögðu nei. Það væri engin verðbólga í kortunum. Síðan jókst verðbólgan og spurt var hvaðan hún kæmi.“
Vernd gegn verðbólgu
– Það eru því uppi réttmætar efasemdir um að seðlabankar geti ekki, eða séu ekki, að stuðla að þeim verðstöðugleika sem að er stefnt?
„Já. Nú erum við föst inni í kerfinu. Þú setur peninga í fasteignir og þá ertu innan kerfisins. Þegar seðlabankar breyta stýrivöxtum hefur það áhrif á fasteigna- og hlutabréfamarkaðinn. Auðvitað tengist bitcoin þessari umræðu en með rafmyntum geturðu kúplað þig út úr kerfinu. Það hefur sýnt sig að gjaldmiðlar halda ekki virði sínu með tímanum en bitcoin er tilraun til að leysa það vandamál, að geyma verðmæti í gegnum tíma og rúm.
Það eru færð mismunandi rök fyrir rafmyntum en við höldum því á lofti að það geti falið í sér vörn gegn verðbólgu sé horft til langs tíma að kaupa bitcoin. Það sama gildir um bitcoin og gull að framboðið er takmarkað,“ segir Patrekur Maron Magnússon að lokum.