Hvað er Leifturnetið (e. Lightning Network)?

Leifturnetið er kerfi sem situr ofan á Bitcoin kerfinu og er oft talin ein mikilvægasta hugmynd sem komið hefur fram til þess að auka afköst þess og gera Bitcoin að gjaldmiðli sem hægt sé að nota til þess að greiða fyrir vörur og þjónustu um allan heim.

Leifturnetið er svokölluð annars-lags lausn ofan á Bitcoin bálkakeðjunni.

Afköst Bitcoin kerfisins hafa oft verið talin þess helsti akkílesarhæll. Bálkakeðjan (e. blockchain) í sinni núverandi mynd ræður einungis við u.þ.b. 10 færslur á sekúndu, sem er alls ekki nægilega öflugt fyrir greiðslukerfi á heimsvísu. Til samanburðar streyma um 2.000 færslur í gegnum greiðslukerfi VISA á hverri sekúndu.

Leifturnetið gerir fólki kleift að framkvæma hraðar og ódýrar færslur í miklu magni án þess að þurfa að treysta 3ja aðila fyrir peningnum sínum.

Leifturnetið gerir það að verkum að Bitcoin getur náð svipuðum, ef ekki mun meiri afköstum en t.d. VISA og Mastercard. Það er aðallega hugsað fyrir smærri færslur, t.d. viðskipti sem fólk stundar dags daglega, á meðan stærri færslur munu enn eiga heima á bálkakeðjunni. Bálkakeðjan mun alltaf vera öruggasta leiðin til þess að stunda viðskipti, en Leifturnetið nýtir öryggi bálkakeðjunnar á sniðugan máta, án þess að þurfa að vista hverja einustu færslu á keðjunni sjálfri.

Kerfið samanstendur af svokölluðum greiðslurásum, milli tveggja aðila þar sem þeir geta sent færslur fram og til baka sín á milli. Hver greiðslurás þarf einungis að vista tvær færslur á bálkakeðjunni sjálfri, eina færslu til þess að opna rásina og aðra til þess að loka henni, en þess á milli geta þessir tveir aðilar sent ótakmarkað magn af færslum sín á milli.

Það er óþarfi að vista hverja einustu færslu á bálkakeðjunni að eilífu. Leifturnetið vistar tvær færslur á bálkakeðjunni til þess að stofna greiðslurás, en innan greiðslurásarinnar er hægt að framkvæma þúsundir færslna. Áhrifin sem þetta getur haft á afköst kerfisins eru veruleg og fara afköstin að verða á pari við stærstu greiðslukerfi heims í dag.

Hægt er að sameina greiðslurásir til þess að auka afköst kerfisins enn frekar.

Leifturnetið er enn á þróunarstigi og þykir ekki orðið nógu stabílt til þess að nota það í hversdags viðskiptum. Kerfið er einungis nýorðið árs gamalt og er í stöðugri þróun. Það hefur þó vaxið gríðarlega hratt á síðustu misserum og í dag eru um 5 milljónir dollara bundnar í greiðslurásum. Gaman verður að fylgjast með þróun þessara gríðarlega spennandi verkefnis sem vonandi mun halda áfram að vaxa og dafna. Við hjá Myntkaup munum fjalla um þessa þróun eftir bestu getu og vonumst til þess að geta fært ykkur nýjar fréttir af kerfinu fljótlega.