Bitcoin brýtur $100.000 múrinn! 🚀 Sögulegur áfangi fyrir stærstu rafmynt heims

Dagurinn í dag markar tímamót í sögu bitcoin en gengi bitcoin rauf 100.000 dollara múrinn í fyrsta skipti í nótt! 

En hvernig komumst við hingað? Við skulum kafa ofan í ástæður þess að gengið hefur hækkað svona mikið undanfarið:

1. Kauphallarsjóðir

Í upphafi árs samþykkti bandaríska verðbréfaeftirlitið, SEC, umsóknir Blackrock, Fidelity og níu annarra sjóða um kauphallarsjóði (Spot ETF) fyrir Bitcoin. Óhætt er að segja að innstreymi fjármagns í þessa sjóði hafi gengið framar björtustu vonum. Til marks um það má nefna að IBIT (Blackrock) situr nú á rúmlega 200.000 BTC, eða rétt tæplega 1% af heildarframboði myntarinnar. Með innkomu þessara sjóða hefur Bitcoin nú verið samþykkt af stofnanafjárfestum sem viðurkenndur kostur í eignasöfnum slíkra aðila.

2. Bitcoin helmingunin

Hinn 19. apríl síðastliðinn fór fram fjórða helmingunin í sögu Bitcoin og við það helmingaðist dagleg nýmyndun bitcoin úr 900 BTC í 450 BTC. Eins og þeir sem hafa kynnt sér fjögurra ára hringrásarferli Bitcoin vita hefst nýr bolamarkaður yfirleitt nokkrum mánuðum eftir helmingunina og eru því margir rafmyntafjárfestar búnir að fá þá staðfestingu sem þeir þurfa að bolamarkaðurinn sé hafinn og binda miklar vonir við árið 2025.

3. Trump áhrifin og væntingar um mögulegan Bitcoin varaforða Bandaríkjanna

Verðandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hefur verið ötull stuðningsmaður Bitcoin og rafmyntaiðnaðarins í kosningabaráttu sinni. Jafnframt hefur vakið athygli að þeir einstaklingar sem hann hyggst tilnefna í lykilembætti hafa lengi verið miklir stuðningsmenn Bitcoin og annarra rafmynta. Má þar nefna varaforsetaefni hans, J.D. Vance, Elon Musk, Robert F. Kennedy, Vivek Ramaswamy og fleiri. Trump hefur einnig viðrað hugmyndir um að ríkissjóður Bandaríkjanna ætti að styrkja Bitcoin stöðu sína og segja má að augu markaðarins beinist nú að frumvarpi öldungardeildarþingmannsins Cynthiu Lummis, The BITCOIN act, sem mun heimila ríkissjóði Bandaríkjanna að kaupa allt að 200.000 BTC á ári næstu 5 ár, og halda því að lágmarki í 20 ár, nái frumvarpið að verða að lögum. Í ljósi þess að Repúblikanar tryggðu sér báðar deildir þingsins hafa væntingar um að frumvarpið verði samþykkt aukist, þótt ekkert sé enn víst í þeim efnum. Hver sem örlög þessa frumvarps verða í þessari atrennu er morgunljóst að Bitcoin heldur áfram að heilla fleiri og fleiri aðila sem lausn við þeim augljósu og áþreifanlegu vandamálum sem leiða af núverandi peningakerfi. Virðast Íslendingar ekki ætla að sitja hjá í þessari byltingu en viðskiptavinir Myntkaupa telja nú yfir 17.000 manns!

​Óhætt er að segja að spennandi verður að fylgjast með tíðindum ársins 2025 en líkur eru á að árið verði gott fyrir bitcoinera landsins.